Goðsögn Liverpool ekki ánægður með markvörðinn

Simon Mignolet
Simon Mignolet Ljósmynd/Liverpoolfc.com

Bruce Grobbelaar fyrrverandi markvörður Liverpool gagnrýnir Simon Mignolet markvörð Liverpool í dag fyrir að eiga sök á flestum af þeim 42 mörkum sem liðið hefur fengið á sig í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Belginn Mignolet gekk í raðir Liverpool fyrir tímabilið frá Sunderland og leysti Pepe Reina af hólmi. Þrátt fyrir að Liverpool tróni á toppnum og eigi góða möguleika á að vinna sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 24 ár er Grobbelaar ekki sáttur við frammistöðu Mignolets.

„Góður markvörður þarf að geta verið góður með boltann á fótunum, spilað honum til samherja og vera öruggur í vítateignum. Markvörður ætti ekki að vera sigraður eins og hann og markvarðaþjálfari liðsins þarf að taka hann í gegn. Það er ekki spurning að hann getur bætt sig mikið,“ sagði Grobbelaar, sem átti það til þegar hann var á milli stanganna hjá Liverpool að láta hjörtu stuðningsmanna félagsins slá örar.

„Lið sem hefur fengið á sig jafnmörg mörk og raun ber vitni ætti ekki að geta unnið deildina. Liverpool fær á sig allt of mörg mörk en engu að síður getur það unnið deildina. Liðið hefur spilað frábærlega með Suárez, Sturridge og Sterling frábæra í fremstu víglínu. Það er virkilegan gaman að sjá liðið spila,“ segir Grobbelaar, sem lék með Liverpool frá 1981 til 1994. Hann varð sex sinnum Englandsmeistari með liðinu og vann bikarinn þrisvar sinnum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert