Moyes mun fá hlýjar móttökur

David Moyes.
David Moyes. AFP

Roberto Martinez knattspyrnustjóri Everton segir að David Moyes eigi að búast við hlýjum móttökum þegar hann mætir á Goodison Park á sunnudaginn en þá mætast Everton og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.

Moyes var við stjórnvölinn hjá Everton í 11 ár þar til hann tók við starfi Sir Alex Ferguson hjá Manchester United síðastliðið sumar. Eftirmaður Moyes hjá Everton var Martinez sem hefur gert frábæra hluti með liðið.

„Ég er sannfærður um að Moyes mun fá góðar móttökur. Starf hans hjá félaginu verðskuldar það. Hann stóð sig frábærlega. Við vitum öll að hann er stjóri Manchester United núna og ég er viss um að móttökurnar verði öðruvísi en sem fyrrum stjóri Everton þá eiga allir Everton menn góðar minningar af því starfi sem hann vann fyrir félagið,“ sagði Martinez við fréttamenn.

Everton hafði betur í fyrri leik liðanna á Old Trafford, 1:0, og var það fyrsti sigur Everton á Old Trafford frá því árið 1992.

Everton er í 5. sæti deildarinnar með 66 stig en Manchester United er með 57 stig í 7. sæti en á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert