Liverpool færist skrefi nær

Liverpool færðist skrefi nær enska meistaratitlinum í knattspyrnu í dag með sigri á Norwich á útivelli, 3:2. Liverpool hefur þar með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar, hefur 80 stig en Chelsea 75. 

Manchester City er níu stigum á eftir Liverpool og á tvo leiki til góða. 

Sterling var hetja Liverpool í þessum leik. Hann skoraði tvö af mörkum liðsins og átti stoðsendingu í marki Luiz Suárez.  Liverpool var tveimur mörkum yfir í hálfleik eftir að hafa ráðið lögum og lofum. Heimamenn veittu meiri mótspyrnu í síðari hálfleik en það dugði þeim ekki til þess að krækja sér í stig í botnbaráttunni. 

Norwich - Liverpool 2:3
Hooper 54., Snodgrass 78. - Sterling 2., 62., Suárez 11.

90 + 3. Lucas nærri því að bæta við fjóra markinu en markvörður Norwich bjargar í horn. Licas hefði betur gefið boltann á Suárez sem var í góðu færi. 

90. Fjórum mínútum bætt við vegna tafa. Leikmenn Liverpool virðast hafa leikinn í sínum höndum.

83. Mignolet ver skalla frá van Wolfswinkel sem staddur var við vítateigslínu. Skalli van Wolfswinkel, sem er ný kominn inn á sem varamaður, var nánast beint á Mignolet markvörð.

81. Liverpool styrkir vörnina. Joe Allen er kallaður af velli og Daniel Agger kemur í hans stað.

78. MARK 2:3 Leikmenn Norwich eru ekki af baki dottnir. Snodgrass minnkar muninn þegar hann skallar fyrirgjöf frá vinstri í mark Liverpool. Vasklega gert hjá pilti. 

71. Martin sópar boltanum með öxlinni yfir mark Liverpool eftir hornspyrnu. Svona færi eiga menn að nýta betur og helst með því að reka höfuðið í boltann. 

63. Liverpool í vænlegri sókn en varnarmenn Norwich ná að létta pressunni. 

62. Þriðja mark Liverpool er staðreynd. Johnson tapaði boltanum á miðjunni eftir slaka sendingu. Sterling var fljótur að átta sig og skeiðaði upp völlinn með boltann. Þegar hann komst inn í vítateiginn spyrnti hann knettinum í fyrrgreindan Johnson. Boltinn hrökk af honum og  í boga yfir Ryddy markvörð Norwich sem átti ekki möguleika á að verja. Annað mark Sterling í leiknum.

59. Suárez nærri því að skora þriðja mark Liverpool. Hann fékk boltann rétt utan vítateigs, leikur á tvo varnarmenn Norwich og spyrnir boltanum með hægri fæti rétt framhjá markinu. 

58. Leikmenn Norwich freista þess að láta kné fylgja kviði og jafna metin. Leikmenn Liverpool virka ekki eins frískir og í fyrri hálfleik, hvað svo sem gerist þegar á hálfleikinn líður. 

54. MARK 1:2 Hooper minnkar muninn fyrir Norwich. Boltinn dettur fyrir fætur hans í vítateignum eftir að Mignolet, markvörður Liverpool, gerir þau afdrifaríku mistök að reyna að slá boltann frá markinu eftir fyrirgjöf frá hægra kanti. Mignolet hefði betur gripið boltann enda hafði hann alla möguleika á því. Nú færist fjör í leikinn. 

52. Redmond tekur hornspyrnu sem er arfaslök og Gerrard hreinasar boltann fram leikvöllinn. 

50. Leikmenn Norwich snúa vörn í sókn. Skrtel skallar boltann í horn sem skilar engu fyrir heimamenn sem virðast vera að færa sig upp á skaftið. 

49. Sterling spyrnir knettinum yfir mark Norwich eftir góða sendingu frá Coutinho. Þarna gat Sterling gert betur. 

46. Liverpool byrjar síðari hálfleik af krafti og fær aukaspyrnu sem Gerrard tekur. Leikmenn Norwich skalla boltann frá og í innkast. Sókn Liverpool heldur áfram.

46. Síðari hálfleikur er hafinn. 

45. Þá styttist í að flautað verði til síðari hálfleiks. Leikmenn ganga mis glaðbeittir út á leikvöllinn en tedrykkju í hálfleik.

45+2. Flautað til hálfleiks. Leikmenn ganga til búningsherbergja til tedrykkju, skrafs og ráðagerða. Verðskulduð forysta Liverpool. 

45. Turner fær gult spjald fyrir brot á Sterling á miðjum vallarhelmingi Norwich þegar leikmenn Liverpool voru á leið í vænlega sókn. 

44. Coutinho í vænlegri sókn en skot hans frá miðjum vítateignum vinstra megin fer rétt framhjá marki Norwich. 

42. Coutinho tekur hornspyrnu fyrir Liverpoll frá vinstri inn á markteiginn þar sem Sakho er vel staðsettur en nær ekki að stýra boltanum í átt að markinu. 

40. Leikurinn hefur jafnast mög þegar á hefur liðið. Það virðist sem leikmenn Liverpool ætli ekki að bæta við fleiri mörkum í fyrri hálfleik. 

29. Snodgrass fær fyrsta gula spjaldið í leiknum hjá Marriner dómara fyrir ljótt brot á Allen. 

25. Mesta fjörið virðist runnið af leikmönnum beggja liða að sinni eftir fjörugar upphafsmínútur. 

Bent hefur verið á að Liverpool hafi skorað 56 mörk í fyrri hálfleik í leikjum keppnistímabilsins. Þar af leiðandi þurfa tvö mörk á fyrstu 11 mínútunum í dag ekki að koma svo á óvart. 

17. Nokkur atgangur í vítateig Liverpool og greinilegt er að heimamenn ætla ekki að leggja árar í bát. Leikmenn Liverpool hreinsa frá og snúa vörn í sókn. 

11. MARK 0:2. Það er skammt stórra högga á milli. Liverpool bætir við öðru marki. Sterling sótti upp vinstri kantinn og sendi hnitmiðaða sendingu inn á miðjan vítateiginn þar sem Suárez kom á sprettinum og skoraði með hnitmiðuðu skoti. Hans þrítugasta mark á leiktíðinni. Suárez er þar með fyrsti leikmaður Liverpool til að skora 30 mörk á keppnistímabili síðan Ian Rush gerði það leiktíðina 1986-'87.

10. Allen í góðu færi í vítateig Norwich en Ruddy, markvörður, er réttur maður á réttum stað að þessu sinni og bægir hættunni frá. 

8. Hooper skallar boltann yfir mark Liverpoll af suttu færi eftir fyrirgjör frá vinstri. Hooper var aðþrengdur og náði ekki að stýra boltanum. 

4. MARK 0:1. Leikurinn byrjar fjörlega og leikmenn Liverpool sjá um það. Sterling skorar stórkostlegt mark og opnar markareikninginn á Carrow Road á páskadagsmorgni. Hann þrumar knettinum rétt utan við vítateigsbogann ofarlega í markið, hægra megin við Ruddy, markvörð Norwich. 

1. Flautað hefur verið til leiks!

0. Fimm mínútur þangað til leikurinn hefst. Leikmenn liðanna ganga út á leikvöllinn.  Ekki er annað að sjá en veðrið sé ljómandi gott. 

0. Vinni Liverpool leikinn í Carrow Road í dag tekur liðið mikilvægt skref í átt að sínum fyrsta meistaratitli í 24 ár og þeim fyrsta síðan enska úrvalsdeildin var sett á stofn.

0. Liverpool stendur vel að vígi í deildinni fyrir leikinn í dag. Liðið hefur 77 stig að loknum 34 leikjum. Chelsea er með 75 stig en hefur leikið einum leik meira en Liverpool. Chelsea tapaði, 2:1, fyrir Sunderland í gær. Manchester City er í þriðja sæti með 17 stig eftir 33 leiki.  Manchester City mætir WBA á heimavelli annað kvöld. 

0. Norwich er í 17. sæti með 32 stig eftir 34 leiki og er tveimur stigum á undan Cardiff sem er í sætinu fyrir neðan og stigi á eftir WBA sem er næst fyrir ofan Norwich. 

Byrjunarlið Norwich: Ruddy; Whittaker, Martin, Turner, Olsson; Johnson; Howson, Fer; Snodgrass; Redmond, Hooper. - varamenn: Bunn, van Wolfswinkel, Gutierrez, Garrido, R Bennett, Tettey, Josh Murphy.

Byrjunarlið Liverpool: Mignolet; Johnson, Skrtel, Sakho, Flanagan; Gerrard; Lucas, Allen; Sterling, Coutinho, Suárez. - varamennJones, Toure, Agger, Cissokho, Moses, Alberto, Aspas.

DómariAndre Marriner.

0. Beðið er þess að byrjunarliðin verði opinberlega birt. Ljóst er þó að Daniel Sturridge verður ekki með Liverpool í dag vegna meiðsla og Jordan Henderson tekur út leikbann. Lucas og Joe Allen kom inn í liðið. Þetta eru einu breytingarnar á liði Liverpool frá viðureigninni við Manchester City um síðustu helgi. 
Þá þykir það sérstökum tíðindum sæta að Gary Hooper byrjar í fremstu víglínu hjá Norwich. Hooper tekur stöðu hins geðþekka Ricky Van Wolfswinkel sem byrjar á meðal varamanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert