Tíu stig tryggja Liverpool titilinn

Brendan Rodgers og hans menn spila á Carrow Road í …
Brendan Rodgers og hans menn spila á Carrow Road í dag klukkan 11. AFP

Eftir ósigur Chelsea gegn Sunderland á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær þarf Liverpool ekki lengur að vinna alla þá fjóra leiki sem eftir eru til að tryggja sér enska meistaratitilinn í knattspyrnu.

Tíu stig úr leikjunum fjórum, gegn Norwich, Chelsea, Crystal Palace og Newcastle, nægja nú Brendan Rodgers og hans mönnum, en þeir mega sem sagt gera eitt jafntefli, miðað við að Manchester City vinni alla sína fimm leiki.

Liverpool er með 77 stig og á fjóra leiki eftir, Chelsea er með 75 stig og á þrjá leiki eftir en City er með 71 stig og á fimm leiki eftir. Liverpool og Chelsea mætast á Anfield næsta sunnudag, 27. apríl.

Liverpool getur því náð mest 89 stigum, City mest 86 stigum og Chelsea mest 84 stigum.

Klukkan 11.00 í dag hefst viðureign Norwich og Liverpool á Carrow Road og þar getur Liverpool náð fimm stiga forskoti í deildinni. Norwich berst nú harðri baráttu fyrir lífi sínu í deildinni, er tveimur stigum frá fallsæti og á aðeins eftir leiki gegn liðum í sjö efstu sætum deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert