Meiðsli og bönn en markalaust í Madríd

David Luiz og Mario Suárez í hörðum slag um boltann …
David Luiz og Mario Suárez í hörðum slag um boltann í leiknum í kvöld. AFP

Atlético Madríd og Chelsea gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum í undanúrslitum meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Vicente Calderón-leikvanginum í Madríd í kvöld. Það er því allt í járnum fyrir seinni viðureignina sem fer fram á Stamford Bridge í London miðvikudagskvöldið 30. apríl.

Fátt markvert gerðist uppi við mörkin. Atlético sótti mun meira en komst sjaldan eitthvað áleiðis gegn þéttri vörn enska liðsins.

Chelsea varð fyrir talsverðum skakkaföllum. Petr Cech markvörður fór af velli strax á 18. mínútu, líkast til farinn úr axlarlið, og John Terry fyrirliði þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla eftir rúmar 70 mínútur. Þá eru bæði Frank Lampard og Mikel John Obi komnir í leikbann í seinni leiknum vegna gulra spjalda í kvöld, og sama er að segja um Gabi, leikmann Atlético.

Atlético Madríd - Chelsea 0:0
Fyrri leikur.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90+6. Leik lokið í Madríd og ekkert mark, nánast engin færi en meiðsli og leikbönn eru aðalfréttir kvöldsins.

90+3. Willian fer af velli hjá Chelsea og Demba Ba leysir hann af hólmi.

89. Gult. Mirandha hjá Atlético fær gula spjaldið fyrir að skella Fernando Torres sem var að komast inn í  vítateiginn á góðum spretti. Aukaspyrna á fínum stað en David Luiz skýtur yfir mark Atlético.

86. David Villa kemur inn á fyrir Raúl García hjá Atlético.

76. Mark Schwarzer ver vel í marki Chelsea - aukaspyrnu Gabi af 25 metra færi. Hættulegur bolti niðri í vinstra horninu en Ástralinn aldraði slær boltann í horn.

75. Gult. Þar fór gula spjaldið tvisvar á loft og tveir leikmenn í viðbót eru komnir í bann í seinni leiknum. Mikel John Obi hjá Chelsea og Gabi hjá Atlético.

74. John Terry, fyrirliði Chelsea, er farinn af velli vegna meiðsla. Andre Schürrle kemur inn á í staðinn og David Luiz fer af miðjunni í vörnina.

71. Samkvæmt enskum netmiðlum fór Petr Cech úr axlarlið. Það verður eflaust staðfest fljótlega. Nú er John Terry meiddur og fær aðhlynningu en hann lá á vellinum rétt áðan og hélt þá áfram.

64. Gult. Frank Lampard er kominn í bann í seinni leiknum. Hann fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Turan.

60. Arda Turan kemur inn á fyrir Diego hjá Atlético.

46. Seinni hálfleikur er hafinn. Engar breytingar á liðunum í hálfleik.

45+4. Flautað til hálfleiks á Vicente Calderón. Staðan er 0:0.

45. Diego Costa nær föstu skoti að marki Chelsea af 20 m færi en beint á Mark Schwarzer í markinu, Fjórum mínútum bætt við fyrri hálfleikinn vegna meiðslanna hjá Petr Cech.

38. Fátt sem hefur gerst við mörkin. Eitt hörkuskot frá Mario Suárez af 25 m færi, hárfínt framhjá marki Chelsea. Annars gengur Spánverjunum lítið að spila sig í gegnum vel skipulagða vörn Chelsea.

24. Nú velta menn því fyrir sér hvort met hafi verið sett í kvöld. Þrír markverðir Chelsea eru búnir að taka þátt í leiknum strax eftir 18 mínútur. Thibaut Courtois er í láni hjá Atlético frá Lundúnaliðinu.

21. Mark Schwarzer er orðinn elsti leikmaður sem spilað hefur í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, 41 árs og 198 daga gamall.

18. Petr Cech þarf að fara af velli. Hann hefur lent illa, líklega rifbeinsbrotinn eða eitthvað í þá áttina. Mark Schwarzer kemur inn á í hans stað og fer í mark Chelsea.

15. Petr Cech, markvörður Chelsea, liggur eftir að hafa bjargað naumlega eftir hornspyrnu. Hann sló boltann yfir markið og lendir svo illa á Raúl Garcia, leikmanni Atlético. Hann biður strax um aðhlynningu. Hinn 41 árs gamli Mark Schwarzer er farinn að hita upp.

7. - Miðað við upphafsmínúturnar verður það Atlético sem sækir í kvöld en Chelsea verst. Það kemur svo sem ekkert á óvart.

18.46 - Leikurinn er hafinn á Vicente Calderón. Gífurleg stemning.

18.39 - Eins og búast mátti við var Fernando Torres  fagnað innilega á Vicente Calderón leikvanginum í kvöld, þegar liðin voru kynnt fyrir áhorfendum. Hann er ennþá vinsæll hjá stuðningsmönnum Atlético, en þeir bauluðu hinsvegar hressilega á José Mourinho knattspyrnustjóra, enda var hann síðast við stjórnvölinn hjá fjendunum í Real Madríd.

18.26 - Nokkrir eru á hættusvæði vegna gulra spjalda fyrir leikinn í kvöld. Hjá Chelsea eru það David Luiz, Frank Lampard, Mikel John Obi og Willian og hjá Atlético þeir Koke, Gabi og Juanfran. Ef einhver þeirra fær gult spjald í kvöld verður sá hinn sami í banni í seinni leiknum á Stamford Bridge. Branislav Ivanovic hjá Chelsea er í banni í kvöld.

18.23 - Diego Costa, framherji Atlético, er fjórði markahæsti leikmaður meistaradeildarinnar í vetur með 7 mörk. Aðeins Cristiano Ronaldo, 14 mörk fyrir Real Madríd, Zlatan Ibrahimovic, 10 mörk fyrir París SG, og  Lionel Messi, 8 mörk fyrir Barcelona, hafa skorað meira. Hjá Chelsea hefur enginn skorað meira en 3 mörk í keppninni í vetur en Fernando Torrres, Demba Ba og Samuel Eto'o hafa gert 3 mörk hver.

18.08 - Ashley Cole er í byrjunarliði Chelsea í fyrsta sinn í þrjá mánuði en José Mourinho gerði sex breytingar á byrjunarliði sínu frá tapleiknum óvænta gegn Sunderland á laugardaginn. Marco van Ginkel er á varamannabekk Chelsea í fyrsta sinn síðan hann sleit krossband í hné í ágúst.

18.05 - Liðin í heild sinni, með varamönnum, eru þannig skipuð í kvöld:

Atlético: Courtois, Juanfran, Miranda, Godín, Filipe Luís, Raúl García, Gabi, Mario Suárez, Koke, Diego, Diego Costa.
Varamenn: Aranzubia, Tiago, Villa, Turan, Rodriguez, Sosa, Alderweireld.
Chelsea: Cech, Azpilicueta, Cahill, Terry, Cole, Mikel, Luiz, Lampard, Ramires, Torres, Willian.
Varamenn: Schwarzer, Oscar, Schürrle, van Ginkel, Ba, Ake, Kalas.
Dómari: Jonas Eriksson (Svíþjóð)

17.45 - Fernando Torres er í byrjunarliði Chelsea en Samuel Eto'o er meiddur og ekki með í för. Torres er heldur betur á heimaslóðum en hann var í röðum Atlético frá 11 ára aldri og þar til Liverpool keypti hann 23 ára gamlan árið 2007. Hann er mikill stuðningsmaður félagsins og fær örugglega  góðar móttökur hjá áhorfendum. Torres skoraði 82 mörk í 214 leikjum fyrir Atlético í spænsku 1. deildinni frá 2001 til 2007.

17.42 - Eden Hazard er ekki í hópnum hjá Chelsea. Byrjunarliðið er svona: Cech, Azpilicueta, Cahill, Terry, Cole, Mikel, Luiz, Lampard, Ramires, Torres, Willian.

17.40 - Byrjunarlið Atlético er klárt: Courtois; Juanfran, Miranda, Godín, Filipe; Mario, Gabi; Koke, Raúl García, Diego og Diego Costa.

17.30 - Chelsea sló Galatasaray út í 16 liða úrslitum, 3:1 samanlagt, og Atlético vann þá AC Milan 5:1 samanlagt. Í 8 liða úrslitunum hafði Chelsea betur gegn París SG, komst áfram á marki á útivelli en liðin voru jöfn, 3:3. Atlético slo þá út Barcelona, 2:1 samanlagt.

17.30 - Atlético er eina liðið sem komið er í undanúrslitin sem aldrei hefur orðið Evrópumeistari en liðið lék til úrslita fyrir fjöutíu árum, árið 1974. Þá tapaði spænska liðið fyrir Bayern München í úrslitaleik. Chelsea varð hinsvegar Evrópumeistari árið 2012 með því að sigra Bayern í úrslitaleik en tapaði fyrir Manchester United í úrslitum árið 2008.

Petr Cech liggur meiddur eftir að hafa slegið boltann yfir …
Petr Cech liggur meiddur eftir að hafa slegið boltann yfir þverslána og lent ofan á Raúl García, sem situr í markinu. AFP
Petr Cech markvörður Chelsea leiddur af velli á 18. mínútu …
Petr Cech markvörður Chelsea leiddur af velli á 18. mínútu leiksins í kvöld. AFP
Juanfran og Willian eigast við á upphafsmínútunum í kvöld.
Juanfran og Willian eigast við á upphafsmínútunum í kvöld. AFP
Kátir og skrautlegir stuðningsmenn Atlético á vellinum í kvöld.
Kátir og skrautlegir stuðningsmenn Atlético á vellinum í kvöld. AFP
Leikmenn Atlético Madríd á æfingu fyrir leikinn í kvöld. Þeir …
Leikmenn Atlético Madríd á æfingu fyrir leikinn í kvöld. Þeir reyna að komast í sinn fyrsta úrslitaleik í 40 ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert