Mourinho hvílir lykilmenn gegn Liverpool

José Mourinho á blaðamannafundi í kvöld eftir markalausa jafnteflið gegn …
José Mourinho á blaðamannafundi í kvöld eftir markalausa jafnteflið gegn Atlético Madríd í Meistaradeildinni. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea sagði eftir markalausa jafnteflið gegn Atlético Madríd í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld að hann ætli sér að hvíla lykilmenn liðsins gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

„Ég gæti hugsað mér að tefla sem fæstum fram í leikinn gegn Liverpool sem ég ætla að nota á miðvikudaginn,“ er haft eftir Mourinho í breskum fjölmiðlum í kvöld.

„Ég ákveð þetta samt ekki einn. Ég er bara knattspyrnustjórinn. Ég þarf að hlusta á félagið,“ sagði Mourinho, en Chelsea er fimm stigum á eftir toppliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea varð fyrir áfalli í kvöld þegar ljóst varð að Peter Cech og John Terry leika ekki meira á leiktíðinni vegna meiðsla.

„Þegar forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar ákváðu að setja leik okkar gegn Liverpool á sunnudag eftir að Liverpool neitaði að spila leikinn á laugardag - þá er þetta ákvörðun sem ég þarf að taka með liðinu mínu. Ef félagið vill gera allt sem það getur til að vinna Meistaradeildina þá er ég reiðubúinn að hvíla lykilmenn gegn Liverpool,“ hélt portúgalski stjórinn áfram. Mourinho hefur unnið Meistaradeildina sem stjóri Porto og Inter Mílanó, en hefur aldrei tekist að vinna keppnina með Chelsea.

„Við erum fulltrúar enskrar knattspyrnu í Meistaradeildinni þar sem við erum eina félagið frá Englandi sem er eftir í keppninni. Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hefðu átt að berjast fyrir því að við spiluðum gegn Liverpool á laugardag svo við fengjum aukna hvíld fyrir seinni leikinn gegn Atlético. Við margbáðum um að fá að spila leikinn gegn Liverpool á laugardeginum,“ sagði Mourinho í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert