Diaby tilbúinn eftir eins árs fjarveru

Abou Diaby.
Abou Diaby. AFP

Franski miðjumaðurinn Abou Diaby gæti spilað með Arsenal í lokaumferðum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu en hann hefur verið frá keppni í þrettán mánuði eftir að hann sleit krossband í hné í mars á síðasta ári.

Arsene Wenger knattspyrnustjóri skýrði frá þessu á vef félagsins í dag en Diaby lék annan hálfleikinn með 21-árs liði Arsenal gegn Chelsea í gær.

„Hann hefur ekki spilað í heilt ár en líkamlega er hann algjörlega klár í slaginn. Nú er þetta bara spurning um ákvarðanatöku hjá honum og að venjast því á ný að fara í návígin. Allir höfðu talið hann af en hann er frískur og tilbúinn," sagði Wenger.

Abou Diaby er 27 ára gamall og hefur verið í röðum Arsenal í átta ár. Hann á að baki 123 leiki með liðinu í úrvalsdeildinni og 16 A-landsleiki fyrir Frakka en hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert