„Þakka Sir Alex fyrir að hafa veitt mér tækifæri“

David Moyes.
David Moyes. AFP

David Moyes hefur þakkað Sir Alex Ferguson fyrir að hafa gefa honum tækifæri til þess að þjálfa Manchester United. Þetta segir í yfirlýsingu sem Moyes hefur sent frá sér en hann var rekinn úr starfi hjá Manchester-liðinu í fyrradag.

Athygli vekur að Moyes þakkar Sir Alex, aðstoðarmönnum sínum og starfsfólki félagsins en minnist ekki einu orði á leikmenn liðsins.

„Að hafa verið ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United var og er enn eitthvað sem ég mun alltaf vera afar stoltur af. Ég er enn þakklátur Sir Alex fyrir að hafa trú á getu minni og hafa gefið mér tækifæri á að stýra Manchester United,“ segir í yfirlýsingu frá Moyes en eftir 10 mánuði hans í starfi hjá Manchester United ákvað stjórn félagsins að segja samningi Skotans upp.

„Umfang knattspyrnustjóra Manchester United er gríðarlegt en ég hef aldrei stigið í burtu frá erfiðu verki. Ég skil vel gremju stuðningsmanna Manchester United með árangurinn á tímabilinu. Ég hef alltaf talið að knattspyrnustjóri hætti aldrei að læra á sínum ferli og ég mun taka með mér ómetanlega reynslu frá mínum tíma sem stjóri United,“ segir Moyes.

Ryan Giggs mun stjórna liði Manchester United í þeim fjórum leikjum sem liðið á eftir að spila í deildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert