Man.City og París SG geta andað léttar

Leikmannahópur Manchester City er dýr og erfitt fyrir félagið að …
Leikmannahópur Manchester City er dýr og erfitt fyrir félagið að fylgja reglunum um fjárhagslega háttvísi. AFP

Forráðamenn Manchester City og  París SG geta andað aðeins léttar en áður því Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, sagði í dag að ekkert félag yrði rekið úr Evrópukeppni á næsta keppnistímabili fyrir að brjóta reglur sambandsins um fjárhagslega háttvísi.

Strangar reglur UEFA þar að lútandi taka gildi næsta vetur en þær voru settar til að koma í veg fyrir að félög eyddu meiri fjármunum en þau öfluðu. Manchester City og París SG hafa fengið fúlgur fjár frá forríkum eigendum sínum og eru talin vera þau félög sem eru í mestri hættu á að verða refsað.

Nefnd UEFA um fjárhagslega háttvísi, FFP, hefur farið yfir öll gögn félaga undanfarnar vikur. „Fyrstu ákvarðanir nefndarinnar verða kynntar í byrjun maí. En ef þið eigið von á blóðugum aðgerðum, gráti og gnístran tanna, þá verðið þið fyrir vonbrigðum. Það verður tekið mjög hart á ýmsu en ekkert lið verður rekið úr Evrópukeppni að svo stöddu," sagði Platini í viðtali við netútgáfu franska blaðsins Le Parisien í dag.

Þungar fjársektir og brottvísanir úr Evrópukeppni eru meðal þeirra refsinga sem FFP-nefndin getur gripið til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert