Suárez: Við sáum þetta ekki fyrir

Luis Suarez fagnar einu marka sinna í vetur.
Luis Suarez fagnar einu marka sinna í vetur. AFP

Úrúgvæinn Luis Suárez, markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, segir að hann hafi ekki átt von á því að gengi liðsins yrði eins gott í vetur og raun ber vitni og ekki séð fyrir sér að liðið yrði í baráttu um meistaratitilinn á lokasprettinum.

Liverpool stendur mjög vel að vígi á toppnum, er með fimm stiga forskot á Chelsea fyrir leik liðanna á Anfield á sunnudaginn og verður meistari ef liðið nær 7 stigum úr síðustu þremur leikjum sínum.

„Ef við vinnum titilinn verður það eitthvað sem enginn hefði trúað fyrirfram. Málið er að við höfum komið sjálfum okkur á óvart með hve vel við höfum spilað. Við erum með góða leikmenn sem sýna hversvegna þeir spila fyrir Liverpool. En það yrði ótrúlegt að landa titlinum vegna þess hve miklum peningum Chelsea, Manchester City og Arsenal hafa eytt. Meira að segja Tottenham hefur eytt yfir 100 milljónum punda. Miðað við hve litlu við eyddum í leikmenn er magnað að við skulum vera í þessari stöðu," sagði Suárez í viðtali við Sky Sports.

„Það var á hreinu að okkar markmið var að vinna okkur keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu. Á það lögðum við alla áherslu og vorum ekki sáttir fyrr en það markmið var í höfn. Nú er það orðið að veruleika, og nú erum við efstir í deildinni, og ætlum að reyna að fylgja því eftir. Við viljum að allir finni fyrir okkur í öllum leikjum.

En ef við vinnum ekki deildina, gerum við aðra atlögu að því næsta vetur. Við höfum komist að því á þessu tímabili að með þennan leikmannahóp er allt hægt," sagði Suárez og gaf lítið fyrir vangaveltur um að hann myndi jafnvel yfirgefa Liverpool í sumar. Hann hefur verið mikið orðaður við Real Madríd.

„Í mínum augum er enska úrvalsdeildin besta deild í heimi. Í leikjum hjá Norwich, Cardiff og Crystal Palace eru troðfullir vellir og gífurleg ástríða fyrir leiknum. Þegar maður upplifir það áttar maður sig á því að í úrvalsdeildinni er aldrei hægt að slaka á í eina mínútu. Allir leikir hérna eru í hæsta gæðaflokki og það er kosturinn við deildina," sagði Luis Suárez sem hefur skorað 30 mörk í 30 deildaleikjum í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert