Jóhann: Tel að þetta sé rétt skref

Jóhann Berg Guðmundsson í landsleik.
Jóhann Berg Guðmundsson í landsleik. mbl.is/Golli

Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu sem samdi í dag við enska félagið Charlton Athletic segir að það sé mjög hæfilegt skref fyrir sig að fara í ensku B-deildina eftir að hafa spilað með AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni allan sinn feril sem atvinnumaður.

Jóhann samdi í dag við Charlton til tveggja ára eins og áður hefur komið fram en hann var laus allra mála frá AZ þar sem samningur hans þar rann út um síðustu mánaðamót.

„Ég vissi af áhuga Charlton í dálítinn tíma en svo fór þetta allt á fullt síðustu daga og ég fann strax að þetta væri rétta skrefið fyrir mig. Ég vildi ekki að það  væri of stórt, aðalmálið er að fá að spila sem mest. Deildin er góð og ef ég stend mig vel hérna má segja að ég verið kominn á kortið. Charlton er með nýjan eiganda og nýjan stjóra, þeir ætla sér að byggja upp alvöru lið og vilja komast í úrvalsdeildina," sagði Jóhann við mbl.is í dag en Charlton er frá suðausturhluta London.

Bob Peeters er nýr knattspyrnustjóri Charlton en hann er fertugur fyrrverandi landsliðsmaður Belgíu og lék um skeið í Englandi með Lundúnaliðinu Millwall.  Hann tók við Charlton í sumar eftir að hafa stýrt Waasland-Beveren, Gent og Cercle Brugge í Belgíu undanfarin fjögur ár.

Spennandi að taka þátt í þessu

„Það er allt til alls hjá Charlton, flottur völlur og æfingasvæði. Félagið var í úrvalsdeildinni í mörg ár og er því með þetta allt saman. Nú er stefnan sett hátt og það verður spennandi að taka þátt í því. Svo eru forréttindi að fá að búa í miðborg London. Ég hef átt heima hérna áður, þekki vel til alls, líkar mjög vel við Bretana og tel þetta henta mér afskaplega vel," sagði Jóhann sem bjó í London með fjölskyldu sinni í hálft þriðja ár á unglingsárunum.

Lið Charlton byrjaði undirbúninginn fyrir tímabilið um síðustu mánaðamót. „Já, þeir eru búnir að fara í eina æfingaferð og svo fer ég með þeim í aðra til Spánar strax á sunnudaginn. Ég er því væntanlega aðeins á eftir þeim til að  byrja með, en ég gerði mitt besta í því að halda mér í formi heima á Íslandi í fríinu og verð fljótur að ná þeim. En ég kem inní algjörlega nýtt umhverfi, ég þekki enga af leikmönnum Charlton og er bara búinn að hitta Tal Ben Haim sem var líka að semja við þá í dag," sagði Jóhann.

Hann hefur mánuð til stefnu því Charlton spilar sinn fyrsta leik í deildinni laugardaginn 9. ágúst en hann er á útivelli gegn öðru Lundúnaliði, Brentford, sem er nýliði í B-deildinni. Í kjölfarið koma svo heimaleikir gegn Wigan og Derby dagana 16. og 19. ágúst.

Jóhann hefur verið í röðum AZ í hálft sjötta ár, þar af fjögur síðustu með aðalliði félagsins. Hann kvíðir engu að skipta um umhverfi. „Ég hef bara gott af því. Þetta er ný áskorun og það er nauðsynlegt að fara útfyrir boxið af og til og læra eitthvað nýtt," sagði Jóhann  Berg Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert