Khedira næstur hjá Arsenal?

Sami Khedira á æfingu þýska landsliðsins í gær.
Sami Khedira á æfingu þýska landsliðsins í gær. AFP

Sami Khedira, miðjumaður þýska landsliðsins og Real Madríd, hefur verið mikið orðaður við Arsenal síðustu daga og taldar eru talsverðar líkur á því að Lundúnafélagið kaupi hann af spænska stórveldinu.

Daily Mail segir að dag að nú hafi hinsvegar komið hiksti í það mál þar sem Real Madríd vilji fá 20 milljónir punda fyrir Þjóðverjann og Arsenal sé ekki reiðubúið til að greiða þá upphæð. Aðrir fjölmiðlar segja að Arsenal hafi þegar boðið 24 milljónir punda en launakröfur Khedira vefjist hinsvegar fyrir Arsenal-mönnum.

Áður hefur komið fram að Khedira hafi hafnað nýju samningstilboði frá Real Madríd með það að markmiði að fara til Lundúnaliðsins.

Arsenal keypti í gær Alexis Sánchez af Barcelona fyrir 35 milljónir punda og Arsene Wenger knattspyrnustjóri hefur sagt í kjölfarið að félagið ætli sér meira á leikmannamarkaðnum í sumar. Franski bakvörðurinn Mathieu Debuchy hjá Newcastle er talinn líklegur til að fara til Arsenal en samkvæmt BBC eru félögin í viðræðum um kaupverð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert