Liverpool nálgast Manquillo

Javier Manquillo
Javier Manquillo Ljósmynd/FIFpro

Enska úrvalsdeildarliðið Liverpool virðist vera nálægt því að landa Spánverjanum Javier Manquillo á eins árs láni frá Atlético Madríd. Manquillo er tvítugur vinstri bakvörður sem lék aðeins 3 leiki með Atlético Madríd í efstu deild Spánar á síðustu leiktíð.

Arsenal er einnig sagt vera á eftir Manquillo en breskir fjölmiðlar telja að Liverpool sé að hafa betur í kapphlaupinu um þjónustu Spánverjans sem metinn er á 10 milljónir punda. Liverpool vilji þó fá kappann að láni til eins árs til að byrja með áður en ákvörðun yrði tekin um, hvort hann yrði keyptur varanlega.

Liverpool er sem stendur í æfingabúðum í Boston í Bandaríkjunum. Ítalski framherjinn Fabio Borini er samkvæmt heimildum Sky ennþá með Liverpool þar, þrátt fyrir að 14 milljóna punda tilboð Sunderland hafi verið samþykkt í hann og næsta víst að Borini sé á leið þangað. Spænski markvörðurinn Pepe Reina er líka í æfingabúðunum með Liverpool eftir eins árs lán hjá ítalska félaginu Napoli, en framtíð Reina hjá Liverpool hefur verið óljós.

Talið er að belgíski framherjinn Divock Origi og Frakkinn Loic Remy muni gangast undir læknisskoðanir í Bandaríkjunum og því sé allt að verða frágengið með kaup Liverpool á þeim. Þá er einnig talið að Liverpool sé búið að bjóða 20 milljónir punda í króatíska miðvörðinn Dejan Lovren, þrátt fyrir að Southamton neiti því enn að tilboð hafi borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert