Van Gaal gagnrýnir ferðalag United

Louis van Gaal á fundinum í Pasadena.
Louis van Gaal á fundinum í Pasadena. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur lýst yfir óánægju með hve æfingaferð liðsins til Bandaríkjanna sé löng og umfangsmikil.

Lið United er komið til Pasadena í Kaliforníu þar sem það mætir LA Galaxy í kvöld og á síðan framundan mikil ferðalög og leiki í Denver, Washington og Detroit.

„Þetta eru langar og margar flugferðir, menn þreytast vegna tímamismunar og þetta er ekki góð leið til að undirbúa liðið fyrir tímabilið. Það var búið að skipuleggja þetta þegar ég kom, svo ég verð að laga mig að þessu, en Manchester United verður síðan að laga sig að því sem ég tel vera góðan undirbúning,“ sagði van Gaal við fréttamenn við komuna til Kaliforníu.

Hann baðst afsökunar á því að hafa komið seint á fundinn en það tók hann klukkutíma að komast 35 kílómetra leið frá hóteli sínu að leikvanginum í Pasadena þrátt fyrir lögreglufylgd. Spurður hvort ferð liðsins á næsta ári yrði stytt, svaraði Hollendingurinn: „Já, ég vona það, og er nokkuð viss um að það verður gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert