Wenger vill líka minni ferðalög

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Það er ekki bara Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United sem kvartar yfir of miklum ferðalögum á undirbúningstímabilinu. Nú hefur Arsene Wenger tekið sama pól í hæðina hjá Arsenal og segir að ferðalög liðsins fyrir tímabilið taki alltof mikinn toll af sínum mönnum.

Van Gaal sagði í vikunni þegar United kom til Pasadena í Kaliforníu að ef hann hefði fengið að ráða hefði ferðalag liðsins um Bandaríkin ekki verið á þann veg sem það var skipulagt í ár. Alltof miklar flugferðir og of lítill tími til að æfa.

„Þessar æfingabúðir í dag eru settar upp af viðskiptalegum ásæðum og vegna þess hve geysilega vinsælt félagið er. Við höfum aldrei áður farið til Bandaríkjanna og ég var mjög ánægður með að koma til New York - það er borg sem ég er heillaður af. En hvað fótboltann varðar er best að vera á sama staðnum og ekki ferðast of mikið því þá eyða menn dýrmætum tíma og fá ferðaþreytu sem er ekki æskileg," sagði Wenger á fréttamannafundi í gær.

Arsenal mætir New York Red Bulls vestanhafs, fer þaðan í æfingabúðir í Austurríki og svo aftur til London þar sem liðið keppir á Emirates Cup áður en úrvalsdeildin enska hefst uppúr miðjum ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert