Monk: Gylfi hefur góð áhrif

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Tottenham.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Tottenham. AFP

Garry Monk knattspyrnustjóri Swansea City segir að íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson sé þegar farinn að hafa góð áhrif á leikmannahóp liðsins eftir að hafa hafið æfingar með því á fimmtudaginn.

Swansea keypti Gylfa af Tottenham fyrir 10 milljónir punda fyrr í vikunni en hann lék með liðinu sem lánsmaður fyrri hluta ársins 2012 og skoraði þá 7 mörk í 18 leikjum í úrvalsdeildinni.

„Gylfi er leikmaður sem ég lagði mikla áherslu á að fá vegna gæðanna, markanna sem hann skorar og vegna þess að hann er þegar búinn að sanna sig í þessari deild. Á þeim stutta tíma sem hann hefur verið hjá okkur erum við þegar farnir að sjá þau gæði sem honum fylgja. Hópurinn hefur þegar skynjað það og þetta hefur mjög jákvæð áhrif," segir Monk í viðtali við vef Swansea.

Félagið keypti ennfremur ekvadorska kantmanninn Jefferson Montero í vikunni og hafði áður keypt markvörðinn Lukasz Fabianski frá Arsenal, sóknarmanninn Bafetimbi Gomis frá Lyon, hollenska sóknarmanninn Marvin Emnes frá Middlesbrough og skoska bakvörðinn Stephen Kingsley frá Falkirk í Skotlandi.

Swansea spilar fjóra leiki gegn neðrideildarliðum á suðurströnd Englands næstu vikuna, tekur á móti Villarreal frá Spáni í lokaleik fyrir tímabilið 9. ágúst og sækir síðan Manchester United heim í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar 16. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert