Lukaku til Everton fyrir metfé

Romelu Lukaku og knattspyrnustjórinn Roberto Martínez eru hæstánægðir með niðurstöðuna.
Romelu Lukaku og knattspyrnustjórinn Roberto Martínez eru hæstánægðir með niðurstöðuna. Ljósmynd/Everton

Everton hefur gengið frá kaupum á belgíska framherjanum Romelu Lukaku fyrir metfé í sögu félagsins eða 28 milljónir punda, jafnvirði um 5,5 milljarða króna. Hann skrifaði undir samning til fimm ára.

Lukaku var á láni hjá Everton á síðustu leiktíð og skoraði þá 15 mörk í ensku úrvalsdeildinni. Hann er 21 árs gamall og hefur verið á mála hjá Chelsea frá árinu 2011 eftir að hann kom frá Anderlecht. Tímabilið 2012-2013 var hann á láni hjá WBA og skoraði þá 17 mörk í 35 deildarleikjum.

„Ég er afar spenntur fyrir því að snúa aftur til Everton. Síðasta tímabil hérna var stórkostlegt og ég hef átt frábært samband við knattspyrnustjórann, formanninn, starfsfólkið, leikmennina og stuðningsmennina. Ég get ekki beðið eftir því að byrja aftur og hlakka til árangursríks tímabils,“ sagði Lukaku.

Áður hafði Everton fengið til sín Gareth Barry og Muhamed Besic auk þess að endurnýja samninga við þá Ross Barkley og Seamus Coleman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert