Markalaust gegn Inter en van Gaal vill miðverði

Leikmenn Man. Utd hlupu til Darren Fletcher og fögnuðu eftir …
Leikmenn Man. Utd hlupu til Darren Fletcher og fögnuðu eftir að sigurinn var í höfn í nótt. AFP

Manchester United vann í nótt sigur á Inter Mílanó á æfingamóti í Bandaríkjunum. Darren Fletcher tryggði sigurinn í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli.

Auk Fletchers skoruðu þeir Ashley Young, Javier Hernández, Tom Cleverley og Shinji Kagawa úr vítum fyrir United sem vann vítaspyrnukeppnina 5:3.

Nemanja Vidic var í byrjunarliði Inter en þessi fyrrverandi fyrirliði United skipti yfir til Inter í sumar. Vegna brotthvarfs hans og Rios Ferdinands er ljóst að United vantar miðvörð og knattspyrnustjórinn Louis van Gaal tók undir það á fréttamannafundi eftir leikinn, þótt ágætlega hafi gengið að verjast á undirbúningstímabilinu:

„Fyrst fengum við ekki á okkur mark, svo eitt draumamark og loks víti. Við höfum staðið okkur vel en við erum að leita að varnarmönnum. Það hafa varnarmenn farið og við verðum að fylla í þeirra skörð. En ég er hrifinn af [Tyler] Blackett] og [Michael] Keane,“ sagði Van Gaal.

Athygli vakti að Luke Shaw spilaði leikinn en van Gaal hafði sagt að Shaw væri ekki í nægilega góðu formi í aðdraganda leiksins. Shaw hefur verið að æfa í einrúmi og hafði æft aukalega fyrir leikinn í gær.

„Hann leggur virkilega hart að sér. Hann var heppinn. Ég ætlaði að nota Reece James en hann meiddist. Þess vegna bað ég Luke að spila. Hann hafði tekið erfiða æfingu um morguninn en lék samt mjög vel,“ sagði Van Gaal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert