Poyet orðinn pirraður á Sunderland

Gus Poyet hefur verið með alla arma úti en gengur …
Gus Poyet hefur verið með alla arma úti en gengur lítið að fá til sín leikmenn. AFP

Gus Poyet, knattspyrnustjóri Sunderland, viðurkennir að hann sé orðinn frekar pirraður yfir því hvað lítið gengur hjá liðinu að fá til sín leikmenn það sem af er sumri.

Alls hafa 12 leikmenn yfirgefið félagið frá síðasta tímabili og einungis fjórir komið í staðinn, þeir Patrick van Aanholt, Jordi Gomez, Billy Jones og Costel Pantilimon. Poyet hefur sagt toppunum innan félagsins að hann vilji fá að minnsta kosti fjóra menn t il viðbótar, helst í þessari viku.

„Einn eða tveir eru að nálgast, en ef ég hefði verið spurður í síðustu viku hefði svarið verið það sama, að þeir séu að nálgast. Þetta gengur hægt og ég get ekki beðið í aðra viku. Við förum eftir helgi og ég þarf því að vera kominn með fjóra nýja menn fyrir miðvikudaginn,“ sagði Poyet, en Sunderland fer í æfingaferð til Portúgals eftir helgina.

„Ég er eins og aðrir stjórar, því fyrr sem nýir menn koma því betra. Það er ljóst að við þurfum að styrkja hópinn en það hefur ekki gerst eins hratt og ég vonaðist eftir,“ sagði Poyet, en hann er talinn sérstaklega pirraður á að félagið hafi hætt við kaup á miðjumanninum Cristian Rodríguez frá Atlético Madrid sem þótti of dýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert