Liverpool vann meistarana í vító

Liðin sem börðust um Englandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð, Liverpool og Manchester City, mættust á æfingamóti í New York í gærkvöld þar sem Liverpool vann í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 2:2 að loknum 90 mínútna leik.

Stevan Jovetic kom City tvívegis yfir í leiknum en þeir Jordan Henderson og Raheem Sterling jöfnuðu metin. Liverpool vann svo 3:1 í vítaspyrnukeppninni þar sem tvö fyrstu víti City fóru í súginn.

Mótið sem um ræðir heitir Alþjóðlegi meistarabikarinn (e. International Champions Cup) og þar keppa 8 lið frá Evrópu. Leikið er í tveimur riðlum og mætast sigurliðin úr þeim í úrslitaleik. Liverpool er efst í sínum riðli og mætir næst AC Milan, og myndi með sigri tryggja sér sigur í riðlinum. Manchester United er sem stendur efst í hinum riðlinum.

Byrjunarliðin í leiknum má sjá hér að neðan auk skiptinga.

Liverpool: Jones (Mignolet), Kelly (Robinson), Toure, Coates (Sakho), Enrique (Johnson), Gerrard (Lucas), Henderson, Allen (Can), Coutinho, Lambert (Sterling), Sturridge.

Manchester City: Caballero (Hart), Clichy (Richards), Kolarov, Boyata, Nastasic, Fernando, Navas, Zuculini, Milner (Iheanacho), Jovetic (Toure), Dzeko (Sinclair).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert