Auknar líkur á að Falcao fari til Liverpool

Falcao sleit krossband í hné síðastliðinn vetur en er kominn …
Falcao sleit krossband í hné síðastliðinn vetur en er kominn aftur á ferðina og byrjaður að skora mörk á ný. AFP

Liverpool freistar þess að fá kólumbíska framherjann Radamel Falcao frá Monaco til að fylla skarðið sem Luis Suárez skildi eftir sig og líkurnar á að kaupin gangi eftir virðast hafa aukist.

Ítalska fjölmiðlakonan Mina Rzouki, sem meðal annars hefur starfað fyrir BBC, Daily Mirror og BT Sports sagði frá því á Twitter-síðu sinni að viðræður varðandi Falcao væru á réttri leið.

„Fundahöld í dag og mjög traustur heimildamaður sagði mér að Liverpool væri með forystuna í keppninni um Falcao. Það er samt ekkert öruggt ennþá. Falcao er á milli Liverpool og [Manchester] City en fyrrnefnda liðið er talsvert líklegra. Þvílíkur fengur sem það yrði,“ sagði Rzouki.

Eftir þetta hafa veðbankar snarlækkað stuðulinn á því að Falcao gangi til liðs við Liverpool. Þannig er Skybet til að mynda með stuðulinn 4/6 á að kaupin gangi eftir.

Falcao er einnig orðaður við Real Madrid í spænska blaðinu AS í dag en forráðamenn Monaco þvertaka fyrir að hann sé á förum frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert