Liverpool í viðræðum um Balotelli

Mario Balotelli skoraði 30 mörk fyrir Manchester City í öllum …
Mario Balotelli skoraði 30 mörk fyrir Manchester City í öllum keppnum þegar hann lék á Englandi. AFP

Breska fréttastofan Sky Sports fullyrðir í dag að Liverpool eigi í viðræðum við AC Milan varðandi ítalska landsliðsframherjann Mario Balotelli. Milan er sagt vilja selja kappann en Liverpool vill helst fá hann að láni.

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool er sagður hafa beint sjónum sínum að Balotelli vegna þess hve erfiðlega hafi gengið í viðræðum við Monaco um kólumbíska framherjann Radamel Falcao.

Balotelli lék síðast á Englandi þegar hann var hjá Manchester City árin 2010-2013. Samkvæmt frétt ítalska blaðsins Gazzetta dello Sport í dag hafa fleiri ensk félög en Liverpool áhuga á að krækja í kappann. Auk Liverpool eru bæði Chelsea og Arsenal sögð á eftir honum.

Uppfært: BBC hefur nú einnig birt frétt þar sem fullyrt er að viðræður séu í gangi á milli Liverpool og AC Milan varðandi Balotelli. Þá hefur fréttin verið staðfest á sjónvarpsstöð AC Milan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert