Van Gaal: Rojo á sér bjarta framtíð

Marcos Rojo fór með Argentínu alla leið í úrslitaleik HM …
Marcos Rojo fór með Argentínu alla leið í úrslitaleik HM í Brasilíu. AFP

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United er hæstánægður með að hafa fengið argentínska varnarmanninn Marcos Rojo frá Sporting Lissabon í gær fyrir 20 milljónir punda. Hann segir Rojo eiga bjarta framtíð fyrir sér. 

United samdi við Rojo til fimm ára og lét Nani í staðinn að láni til Sporting út tímabilið.

Rojo er 24 ára gamall og lék áður með Spartak Moskvu og Estudiantes de la Plata í heimalandinu. Hann á að baki 28 A-landsleiki fyrir Argentínu og átti góðu gengi að fagna á HM í sumar þar sem hann var valinn í Castrol Index-úrvalslið mótsins.

„Marcos er mjög hæfileikaríkur varnarmaður. Hann hefur spilað á efsta stigi heimsfótboltans og getur bæði leikið sem miðvörður og sem vinstri bakvörður. Hann hefur getuna, líkamlega styrkinn og viljann til að læra, allt sem þarf til að hann eigi bjarta framtíð fyrir sér. Hann átti mjög gott HM og hefur leikið í Evrópu um nokkurra ára skeið. Hann er virkilega góð viðbót við liðið,“ sagði van Gaal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert