Ferdinand vill taka við enska landsliðinu

Rio Ferdinand býr yfir mikilli reynslu eftir að hafa leikið …
Rio Ferdinand býr yfir mikilli reynslu eftir að hafa leikið með Manchester United og enska landsliðinu í fjölmörg ár. AFP

Rio Ferdinand, miðvörður QPR og fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins, hefur mikinn áhuga á að taka við landsliðinu eftir að hann leggur takkaskóna á hilluna.

„Það dreymir alla um að spila fyrir enska landsliðið og mig dreymir núna um að þjálfa liðið eftir að ferlinum lýkur,“ sagði Ferdinand í viðtali við Daily Mail.

„Ég reikna ekki með að fá tækifærið strax en þegar ég er kominn með þjálfaragráðuna þá er ég klár. Mér finnst það undarlegt ef ég fæ ekki starf sem knattspyrnustjóri,“ sagði Ferdinand sem einblínir í því samhengi á enska landsliðið.

„Ég ætla að búa mér til tækifæri til að fá starfið með því að klára gráðuna. Fólk ætti ekki að reikna með að fá þjálfarastarf fyrr en að það fær tilskilin leyfi. Ég ætla ekki að sitja hérna og krefjast þess að fá starf fyrst ég er ekki með þau,“ sagði Ferdinand. Hann verður 36 ára gamall í nóvember og segist vera á réttum aldri til að gerast landsliðsþjálfari.

„Löw og Klinsmann voru ungir þegar þeir byrjuðu með þýska landsliðið. Sjáið bara van Basten, Mourinho, Guardiola og Luis Enrique. Þeir voru ekki gamlir þegar þeir fengu tækifæri. Þetta er öðruvísi í þessu landi. Stundum erum við 10 árum á eftir öðrum. Við verðum að gera það sem hentar enskum fótbolta best,“ sagði Ferdinand sem vill gera róttækar breytingar.

„Það þarf róttækar breytingar svo að það fari eitthvað að gerast hjá enska landsliðinu og það gæti komið illa við fólk en til lengri tíma litið mun það virka,“ sagði Ferdinand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert