Rodgers: Balotelli verið frábær á æfingum

Mario Balotelli er orðinn leikmaður Liverpool og gæti spilað fyrsta …
Mario Balotelli er orðinn leikmaður Liverpool og gæti spilað fyrsta leikinn fyrir liðið í hádeginu á sunnudaginn. AFP

Ítalski framherjinn Mario Balotelli gæti þreytt frumraun sína fyrir Liverpool á sunnudaginn þegar liðið sækir Tottenham heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Balotelli kom til Liverpool fyrr í þessari viku og hefur lofað mjög góðu á æfingum að sögn knattspyrnustjórans Brendans Rodgers:

„Hann er í góðu lagi. Hann er búinn að aðlagast mjög vel og hefur litið frábærlega út á æfingum,“ sagði Rodgers við fréttamenn í dag.

„Hann er góður strákur. Hann einbeitir sér að fótboltanum og hefur staðið sig mjög vel. Hann er alfarið að hugsa um félagið og fólkið, en þó aðallega fótboltann. Ég hlakka til að sjá hann þróast á komandi árum,“ sagði Rodgers. Hann vildi ekki gera of mikið úr því hve stuðningsmenn Liverpool virðast æstir yfir kaupunum á Ítalanum.

„Þetta er ekki Mario Balotelli-sýningin. Hann er góður og hæfileikaríkur leikmaður en hann þarf að leggja hart að sér hérna. Við erum með marga leikmenn í hæsta gæðaflokki og eina stjarnan hér er liðið sjálft,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert