Beckham harmar brottför Welbeck

Danny Welbeck er genginn í raðir Arsenal.
Danny Welbeck er genginn í raðir Arsenal. AFP

David Beckham fyrrverandi leikmaður Manchester United er í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC í dag um stefnu United í leikmannamálum í sumar, þar segir Beckham meðal annars harma brottför Danny Welbeck frá félaginu og hve fáir leikmenn úr unglingastarfi félagsins séu í aðalhlutverki hjá liðinu.

„Ég er ekki knattspyrnustjóri Manchester United og verð það ekki í náinni framtíð. En að sjá Danny Welbeck yfirgefa United er sorglegt. En auðvitað veit knattspyrnustjórinn hvað hann er að gera og hvað sé best fyrir félagið. En að Danny, sem kemur í gegnum unglingastarf United hafi verið seldur er leitt. Hann er þó frábær kaup fyrir Arsenal,“ sagði Beckham.

Mike Phelan fyrrverandi aðstoðarstjóri United telur að félagið sé að missa karaktereinkenni sín með því að kaupa fullt af leikmönnum í stað þess að byggja liðið upp á uppöldum leikmönnum í bland við aðkeypta.

„Að leikmaður eins og Danny Welbeck sé horfinn á braut eyðileggur það sem hefur verið einkenni United lengi,“ sagði Phelan við BBC, en hann var aðstoðarmaður Sir Alex Ferguson á árunum 2008-2013.

„Er betra að einblína bara á það sem er í gangi núna frekar en að horfa til framtíðar? Það þætti mér allavega erfitt því unglingarnir eru alltaf framtíðin. Það verða allir að byrja einhvers staðar og maður vonar alltaf að leikmenn sem koma í gegnum unglingastarfið geti svo fest sig í sessi í úrvalsdeildinni,“ sagði Phelan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert