Loksins vann United

Wayne Rooney og Ander Herrera gátu glaðst í dag.
Wayne Rooney og Ander Herrera gátu glaðst í dag. AFP

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United stýrði loksins liði sínu til sigurs í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar lið hans sigraði QPR 4:0 á Old Trafford. Nýjasta stjarna Manchester-liðsins, Radamel Falcao kom inn á sem varamaður hjá United sem spilaði frábærlega í dag.

Angel dí Maria spilaði afar vel fyrir Manchester í dag og kom þeim á bragðið á 24. mínútu. Ander Herrera bætti öðru marki við á 36. mínútu áður en Wayne Rooney lokaði fyrri hálfleiknum með marki á 44. mínútu.

Manchester-liðið yfirspilaði hreinlega lið QPR með fyrrum fyrirliða United, Rio Ferdinand í vörninni en varnarmaðurinn virkaði þungur í dag.

Spánverjinn Juan Mata innsiglaði svo frábæran sigur Manchester-liðsins á 58. mínútu með fínni afgreiðslu en Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao kom inn á fyrir Mata á 67. mínútu.

Eftir sigurinn er Manchester United með fimm stig í 9. sæti en QPR er 16. sæti með þrjú stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert