Ferdinand: Hlægilegar aðferðir hjá Moyes

Rio Ferdinand var í tapliði QPR á Old Trafford í …
Rio Ferdinand var í tapliði QPR á Old Trafford í gær. AFP

Rio Ferdinand fer hörðum orðum um David Moyes, knattspyrnustjórann sem stýrði Manchester United á síðustu leiktíð Ferdinands fyrir liðið, í nýrri sjálfsævisögu sinni.

Ferdinand og félagar höfnuðu í 7. sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en liðið hefur ekki endað svo neðarlega frá stofnun deildarinnar. Moyes var látinn fara í apríl, eftir 10 mánuði í starfi.

„Hann reyndi að koma inn með nýja sýn en það var aldrei alveg ljóst hvernig sú sýn væri. Hann skapaði ósjálfrátt neikvætt andrúmsloft, í stað þess jákvæða sem Fergie hafði skapað. Þetta snerist alltaf um að stoppa andstæðinginn. Moyes vildi ekki tapa. Við vorum vanir því að spila til að vinna, sagði Ferdinand.

Allt það sem Moyes hafði fram að færa leiddi til neikvæðni og misskilnings. Við vorum í mestu vandræðum með að vita hvernig hann vildi að við færðum boltann fram völlinn. Hann sagði okkur oft að beita löngum sendingum. Sumum fannst þeir ekki hafa beitt löngum sendingum svona oft á öllum sínum ferli, sagði Ferdinand.

Andy Carroll spilar ekki fyrir okkur

Stundum var helsta aðferð okkar að beita löngum og háum fyrirgjöfum. Þetta var hlægilegt. Í einum leik gegn Fulham áttum við 81 fyrirgjöf. Ég hugsaði með mér, af hverju erum við að gera þetta? Andy Carroll spilar ekki fyrir okkur, sagði Ferdinand.

Það var svo furðulegt hvernig hann nálgaðist þetta. Stundum vildi Moyes fá fullt af sendingum. Hann sagði kannski: „Í dag vil ég að við náum 600 sendingum í leiknum. Í síðustu viku náðum við bara 400. Hverjum er ekki sama? Ég myndi frekar vilja skora fimm mörk eftir 10 sendingar, sagði Ferdinand.

Fékk skilaboðin fyrir framan alla

Miðvörðurinn var hundfúll út í Skotann fyrir leikinn mikilvæga við Bayern München í Þýskalandi, í Meistaradeild Evrópu síðasta vor, en Moyes tilkynnti það yfir allan leikmannahópinn að Ferdinand yrði ekki í byrjunarliðinu.

Þetta fór alveg með mig. Mig langaði að öskra á hann og grípa í hann. En ég er liðsmaður og hélt aftur af mér. Þetta var örugglega versta augnablik sem ég hef upplifað hjá United. Ég hafði aldrei misst sæti í liðinu fyrir svona leik, og þetta kom hann með fyrir framan alla,“ sagði Ferdinand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert