Neville: Orðið líklegra að Ronaldo snúi aftur

Cristiano Ronaldo er sagður ósáttur í Madrid en sá orðrómur …
Cristiano Ronaldo er sagður ósáttur í Madrid en sá orðrómur hefur hvergi fengist staðfestur. AFP

Það er orðið líklegra en áður að Portúgalinn Cristiano Ronaldo, besti knattspyrnumaður heims á síðasta ári, snúi aftur á Old Trafford til að spila með Manchester United, að mati Gary Neville, fyrrverandi leikmanns United og sérfræðings Sky Sports.

Ronaldo hefur enn á ný verið orðaður við endurkomu til United en hann er sagður óánægður hjá Evrópumeisturum Real Madrid, sérstaklega vegna sölunnar á Ángel di María til United í sumar. Neville telur að kaupin á di María og koma framherjans Radamel Falcao sýni að United sé aftur komið í hóp stærstu félaganna á félagaskiptamarkaðnum.

„Það hafa verið orðrómar um þetta síðasta árið. Það var talað um það síðasta sumar að annað hvort kæmi Cristiano Ronaldo eða Gareth Bale, og núna er sagt að Cristiano sé óánægður í Madrid. Þeir unnu auðvitað Meistaradeildina í vor svo hann er kannski búinn að afreka það sem hann vildi í Madrid? Er hann búinn að ná takmarki sínu? Það er fyrsta spurningin, sagði Neville í þættinum Monday Night Football.

Elskar hann Manchester? Elskar hann United? Já, svo sannarlega. Hann hefur talað meira og meira um það síðustu 12 til 18 mánuði hvað hann sakni Old Trafford, sagði Neville.

Það er alveg ljóst að með því að fá di María og Falcao er orðið líklegra en áður að hann komi, það hlýtur bara að vera, því að nú hefur félagið sýnt skýran vilja og metnað til þess að fá heimsklassaleikmenn,“ sagði Neville.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert