Pellegrini: Verðum að hjálpa Touré

Yaya Touré olli vonbrigðum í leiknum gegn Bayern München í …
Yaya Touré olli vonbrigðum í leiknum gegn Bayern München í Meistaradeildinni í vikunni. AFP

Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City hefur komið miðjumanni sínum, Yaya Touré, til varnar en Touré hefur verið gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu í upphafi tímabilsins.

Paul Scholes, fyrrverandi miðjumaður Manchester United, sagði til að mynda að Touré virkaði áhugalaus og að Pellegrini þyrfti að velta því alvarlega fyrir sér að taka kappann út úr byrjunarliði sínu. City mætir Chelsea í stórleik helgarinnar á morgun.

Við lok síðasta keppnistímabils kom upp undarlegt mál þar sem Touré lýsti yfir óánægju með forráðamenn City þar sem að þeir hefðu ekki sýnt sér nægilega mikla virðingu á afmælisdegi sínum. Mánuði síðar lést svo bróðir Fílabeinsstrendingsins, Ibrahim, á meðan að Yaya var á HM í Brasilíu. Pellegrini segir að sýna verði Yaya Touré stuðning.

„Við verðum að hjálpa honum því hann er afar mikilvægur leikmaður. Kannski hefur hann átt mjög erfitt vegna bróður síns. Það getur ýmislegt komið fyrir hjá mönnum og það er kannski ástæðan fyrir því að hann er ekki upp á sitt besta núna,“ sagði Pellegrini við BBC.

Ég held að sem lið, sem þjálfari, og sem félag verðum við að styðja hann því hann er mikilvægur leikmaður. Hann getur gert gæfumuninn og ég er viss um að hann nær sér aftur á strik. En það er alltaf verið að gagnrýna hann, sagði Pellegrini.

Touré skoraði 20 mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og var lykilmaður í því að landa Englandsmeistaratitlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert