„Ekki nóg að spila vel í 60 mínútur“

Louis van Gaal horfði upp á 5:3 tap gegn Leicester …
Louis van Gaal horfði upp á 5:3 tap gegn Leicester í dag. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, kenndi því um að hans menn hefðu tapað boltanum illa í öllum mörkunum sem United fékk á sig í 5:3-tapinu gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. United komst í 3:1 en leiknum lauk með 5:3-sigri nýliðanna í Leicester.

„Við fórum vel af stað í síðasta leik gegn QPR með nýtt lið, nýja leikmenn og spiluðum mjög vel, en í dag gáfum við þetta bara frá okkur,“ sagði Van Gaal í viðtali við BBC eftir tapið gegn Leicester í dag.

„Leicester átti fimm skot á markið og það var nóg til að skora fimm mörk. Þessi fimm mörk komu öll vegna þess að við töpuðum boltanum illa. Við bjuggum til fjölmörg færi og skoruðum frábær mörk. En þú verður að gera betur en það í 90 mínútur. Það er ekki nóg að spila vel í 60 mínútur,“ sagði Hollendingurinn eftir leikinn í dag.

Manchester United hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu undir stjórn Louis van Gaal. Sigurinn kom í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar gegn QPR. United hefur hins vegar gert jafntefli við Sunderland og Burnley en tapað fyrir Swansea og Leicester og fyrir MK Dons í deildabikarnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert