De Gea: Spjörum okkur án Rooney

David de Gea hefur ekki áhyggjur af fjarveru fyrirliðans Wayne …
David de Gea hefur ekki áhyggjur af fjarveru fyrirliðans Wayne Rooney í næstu leikjum. AFP

David de Gea markvörður Manchester United segir að liðið muni spjara sig án fyrirliðans Wayne Rooney sem mun missa af öllum leikjum liðsins í október vegna leikbanns.

Rooney verður í banni gegn Everton á sunnudaginn, og svo í leikjum gegn WBA og Chelsea, eftir að hafa fengið rauða spjaldið í leiknum gegn West Ham um helgina.

„Wayne er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur og hann er fyrirliði en við erum með fleiri leikmenn sem eru tilbúnir að spila þessa leiki. [Darren] Fletcher verður fyrirliði og ég held að hann verði frábær sem slíkur,“ sagði de Gea.

„Auðvitað var þetta rautt spjald en Wayne Rooney er frábær leikmaður og þarf bara að halda áfram,“ bætti Spánverjinn við.

Erfitt að vera ekki í Meistaradeildinni

De Gea viðurkenndi einnig að það væri vissulega skrýtið að eyða virkum dögum í annað en að spila fótboltaleiki, nú þegar United er ekki í Meistaradeild Evrópu og þegar fallið úr leik í enska deildabikarnum.

„Þetta er skrýtið fyrir liðið, og fyrir okkur leikmennina. Þetta félag er vant því að spila í Meistaradeildinni, bikarnum og deildabikarnum. Þetta er erfitt fyrir okkur en okkur gefst meiri tími til að búa okkur undir leiki,“ sagði de Gea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert