García hættur vegna veikindanna

Oscar García er hættur sem knattspyrnustjóri Watford.
Oscar García er hættur sem knattspyrnustjóri Watford. Ljósmynd/watfordfc.com

Spánverjinn Oscar García hefur ákveðið að hætta sem knattspyrnustjóri enska knattspyrnufélagsins Watford til að huga að heilsunni. Billy McKinlay var ráðinn í hans stað.

García var lagður inn á sjúkrahús fyrr í mánuðinum vegna verkja í brjósti en hefur verið útskrifaður. Hann þarf hins vegar lengri tíma til að jafna sig að fullu og ákvað því að segja starfi sínu lausu í samráði við forráðamenn Watford.

„Ég tók mikinn þátt í ráðningunni á Billy McKinlay af því að ég vissi að ég gæti ekki snúið aftur,“ sagði García.

„Ég vildi alltaf hafa reyndan breskan þjálfara hjá okkur, því það er mikilvægt að hafa blöndu af reynslu og ólíkri menningu í hópnum. Mig langar að þakka stuðningsmönnum Watford fyrir þeirra hlýju í minn garð þann tíma sem ég hef verið hér. Vonandi fæ ég að sjá ykkur öll sem úrvalsdeildarfélag á næstu leiktíð,“ sagði García.

McKinlay er 45 ára gamall fyrrverandi landsliðsmaður Skotlands. Hann var ráðinn sem þjálfari hjá Watford í síðustu viku í kjölfarið á því að García var lagður inn á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert