Sjötti Englendingurinn með þrennu í Meistaradeildinni

Danny Welbeck fagnar einu markanna í gærkvöld.
Danny Welbeck fagnar einu markanna í gærkvöld. AFP

Danny Welbeck varð í gærkvöld sjötti enski knattspyrnumaðurinn sem skorar þrennu í Meistaradeild Evrópu þegar hann gerði þrjú mörk í sigri Arsenal á Galatasaray frá Tyrklandi, 4:1. Hann er jafnframt sá fyrsti enski í fimm ár sem nær þessum áfanga.

Meistaradeildin var stofnuð árið 1992 og kom í staðinn fyrir Evrópukeppni meistaraliða. Enskir leikmenn hafa átta sinnum skorað þrennu, tveir þeirra tvívegis.

Mike Newell varð fyrstur Englendinga til að skora þrennu en það gerði hann fyrir Blackburn gegn Rosenborg frá Noregi í 4:1 sigri 6. desember 1995.

Andy Cole skoraði öll þrjú mörk Manchester United þegar liðið vann Feyenoord frá Hollandi, 3:1, 5. nóvember 1997. 

Cole var aftur á ferðinni 13. september 2000 þegar hann skoraði þrennu fyrir Manchester United í sigri á Anderlecht frá Belgíu, 5:1.

Michael Owen skoraði öll þrjú mörk Liverpool þegar liðið vann Spartak Moskva frá Rússlandi, 3:1, 22. október 2002.

Alan Shearer skoraði öll þrjú mörk Newcastle þegar liðið vann Bayer Leverkusen frá Þýskalandi, 3:1, 26. febrúar 2003.

Wayne Rooney skoraði þrennu fyrir Manchester United í 6:2 sigri á Fenerbache frá Tyrklandi 28. september 2004.

Michael Owen var svo aftur á ferðinni þegar hann skoraði öll þrjú mörk Manchester United í 3:1 sigri á Wolfsburg frá Þýskalandi 8. desember 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert