Lygilegar lokamínútur í sigri Liverpool

Philippe Coutinho hélt að hann hefði tryggt Liverpool sigurinn á …
Philippe Coutinho hélt að hann hefði tryggt Liverpool sigurinn á lokamínútunni, en enn var tími fyrir tvö mörk. AFP

Fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni var að ljúka þegar Liverpool vann ansi nauman sigur á botnliði QPR á útivelli, 3:2. Fylgst var með gangi mála í ENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is

Liverpool var heppið að vera ekki undir í hálfleik, en heimamenn hreinlega óðu í dauðafærum fyrir hlé en var einfaldlega fyrirmunað að skora. Markalaust í hálfleik. Í síðari hálfleik fengu bæði lið sín færi en það var Liverpool sem komst yfir eftir að varnarmaðurinn Richard Dunne, leikmaður QPR, setti boltann í eigið net eftir fyrirgjöf frá hægri - hans tíunda sjálfsmark á ferlinum.

Gestirnir virtust ætla að hafa þetta en þegar fjórar mínútur voru eftir jafnaði Eduardo Vargas metin fyrir QPR eftir vandræðagang í vörn Liverpool og jafntefli í augsýn. Það reyndist aldeilis ekki raunin.

Á lokamínútunni skoraði Coutinho og kom Liverpool yfir með hnitmiðuðu skoti í teignum eftir snarpa sókn gestanna. Einungis mínútu síðar jafnaði téður Vargas hins vegar metin á ný með skalla eftir hornspyrnu. Enn var hins vegar nóg eftir af ballinu.

Í uppbótartíma uppbótartímans geystist Liverpool fram í skyndisókn, Raheem Sterling sendi fyrir þar sem Steven Caulker, varnarmaður QPR, kom á ferðinni og hljóp á boltann sem lak í netið. Þarna var punkturinn settur, lokatölur 3:2 fyrir Liverpool.

Liverpool komst með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar og hefur þar þrettán stig, en QPR er enn á botninum með fjögur stig.

Fylgst er með enska boltanum í allan dag í ENSKI BOLT­INN Í BEINNI hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert