Van Gaal: Besti leikurinn okkar

Louis van Gaal fylgdist spenntur með leiknum í kvöld.
Louis van Gaal fylgdist spenntur með leiknum í kvöld. AFP

„Ég er mjög vonsvikinn vegna þess að þetta var okkar besti leikur á tímabilinu en úrslitin voru ekki nægilega góð,“ sagði Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir 2:2-jafnteflið við West Bromwich Albion í kvöld.

„Við hefðum getað unnið en það telur ekki neitt í þessum heimi. Ég verð líka að vera ánægður með það hvað við sköpuðum mörg færi og að West Brom fékk aðeins tvö. Við gáfum þetta frá okkur sem er synd því að sigur í dag hefði þýtt nýtt upphaf,“ sagði van Gaal.

„Við gerðum einstaklingsmistök sem West Brom neyddi okkur til að gera með því að spila þröngt á miðjunni. Ég þarf að fara yfir mörkin því það er erfitt að meta þetta frá bekknum,“ sagði Hollendingurinn. Hann skipti Marouane Fellaini inná í upphafi seinni hálfleiks, fyrir Ander Herrera, og Belginn skoraði fljótlega sitt fyrsta mark fyrir United.

Átta stigum of lítið

„Ég var búinn að ákveða að setja Marouane Fellaini inná eftir að hálftími var liðinn af leiknum. Ég sagði honum að fylgjast með Ander Herrera því að ég vildi að hann spilaði og hann stimplaði sig strax inn. Herrera spilaði af eðlilegri getu. Hann var ekki mjög góður, bara meðalgóður,“ sagði van Gaal. United er nú með 12 stig í 6. sæti deildarinnar.

„Þetta er ekki alveg nógu gott eftir átta leiki en við höfum yfirleitt verið betra liðið. Við erum með átta stigum minna en við ætluðum okkur,“ sagði van Gaal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert