Hvað gerir Ronaldo á Anfield?

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Það er sannkallaður stórleikur á dagskrá á Anfield í kvöld þegar Liverpool tekur á móti Evrópumeisturum Real Madrid í Meistaradeildinni.

„Það er engum blöðum um það að fletta að lið Real Madrid er stórkostleg. Það er mikil reynsla í þeirra liði, það hefur frábæra leikmenn innanborðs, það er mikill hraði og tækni í liðinu og það er frábært lið í alla staði,“ segir Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool.

Á meðan Liverpool hefur verið upp og niður í leikjum sínum síðustu vikurnar hefur Real Madrid verið á flottu skriði. Liðið hefur unnið sjö síðustu leiki sína í öllum keppnum og skorað í þeim 32 mörk. Rodgers hefur legið yfir því hvernig best sé að halda aftur af Portúgalanum Cristiano Ronaldo sem hefur skorað 15 mörk í spænsku deildinni í átta leikjum en víst er að gamli Manchester United-leikmaðurinn mun ekki fá hlýjar viðtökur hjá stuðningsmönnum Liverpool í kvöld.

Ljóst er að Gareth Bale leikur ekki með Madridarliðinu í kvöld vegna meiðsla en valinn maður er í hverju rúmi hjá liðinu og skarð hans verður vel fyllt, hver svo sem fær það hlutverk.

Real Madrid hefur unnið báða sína leiki og með sigri í kvöld er liðið langt komið með að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum. Liverpool er með þrjú stig en liðið tapaði fyrir Basel í byrjun mánaðarins.

Aðrir áhugaverðir leikir í kvöld eru rimma Anderlecht og Arsenal í Brussel, Olympiacos og Juventus og leikur Galatasaray og Dortmund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert