Í kampavínsbaði og þyrluferðum sem Kakuta

Gaël Kakuta er hér til varnar í leik með Rayo …
Gaël Kakuta er hér til varnar í leik með Rayo Vallecano. Hann hafði ekki hugmynd um að verið væri að nota nafn sitt í ólöglegum tilgangi. AFP

Medi Abalimba, fyrrverandi knattspyrnumaður, hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir að þykjast vera Chelsea-maðurinn Gaël Kakuta og hafa þannig fé af fjölda fyrirtækja.

Abalimba, sem er 25 ára gamall, stundaði það að hringja í verslanir, skemmtistaði og fleiri fyrirtæki, og þykjast vera umboðsmaður Kakuta. Boðaði hann komu franska kantmannsins og bað fyrirtækin um að halda því leyndu, mætti svo sjálfur og þóttist vera Kakuta.

Abalimba tókst að blekkja fjölda aðila með þessu hátterni sínu. Hann notaðist við stolnar kreditkortaupplýsingar og gat þannig verslað fyrir háar upphæðir í ýmsum verslunum, og baðað sig upp úr kampavíni á skemmtistöðum. Þá gisti hann á dýrum hótelum, borðaði á dýrum veitingastöðum og fór meðal annars í þyrluferð frá Manchester til London ásamt fjórum kvenmönnum, áður en upp komst um kauða.

Gaël Kakuta hefur verið á mála hjá Chelsea frá árinu 2009 en er nú á láni hjá Rayo Vallecano á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert