Rodgers: Breytir engu þó að Bale vanti

Gareth Bale verður ekki með Real Madrid á Anfield í …
Gareth Bale verður ekki með Real Madrid á Anfield í kvöld vegna meiðsla. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool segir að fyrir félag á borð við Real Madrid skipti það litlu máli þó að dýrasti knattspyrnumaður heims, Gareth Bale, sé meiddur.

Liðin tvö mætast á Anfield í kvöld kl. 18.45 í Meistaradeild Evrópu. Real hefur verið á miklu skriði og sallað inn mörkum í spænsku 1. deildinni en Liverpool hefur átt erfiðara uppdráttar í ensku úrvalsdeildinni.

Bale á við meiðsli að stríða og missir af leiknum í kvöld sem og El Clásico á laugardaginn. Án hans er Real Madrid samt sem áður sigurstranglegra á Anfield í kvöld að flestra mati.

„Gareth Bale er heimsklassaleikmaður með gríðarlegan hraða og hæfileika, en hópurinn hjá Real Madrid er bara þannig að leikmaður á borð við Isco kemur inn í staðinn svo að mér finnst við ekkert græða á því að hann spili ekki,“ sagði Rodgers.

„Þetta verður virkilega erfiður leikur fyrir okkur. Þeir eru með hóp sem er fullur af leikmönnum í hæsta gæðaflokki,“ bætti Rodgers við, en viðurkenndi svo að einn skaraði líklega fram úr.

„Auðvitað eru þarna einstakir hæfileikar í Cristiano Ronaldo, sem sennilega er besti leikmaður heims í augnablikinu. Hann hefur þróast úr einspilara sem skorar mörk í hreinan markaskorara, og tölfræðin talar sínu máli. En við verðum að skoða hvernig við völdum öllu Real Madrid liðinu vandræðum, áður en við skoðum einstaka leikmenn,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert