Rodgers ræddi við Balotelli

Mario Balotelli.
Mario Balotelli. AFP

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool sagði við fréttamenn í dag að hann hafi rætt við framherjann Mario Balotelli og hafi sagt honum frá menningunni í enska fótboltanaum, hvað sé ásættanlegt og hvað ekki.

Það fór fyrir brjósið á knattspyrnustjóranum þegar hann frétti það eftir leik sinna manna gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í gærkvöld að Balotelli hefði skipst á treyju við Pepe þegar liðin gengu til búningsherberja í hálfleik.

Balotelli átti slakan leik eins og í flestum þeim sem hann hefur spilað í búningi Liverpool og var honum skipt af velli í hálfleik. Spurður út í gagnrýnina á Balotelli sagði Rodgers;

„Þetta gerist þegar lið spila ekki vel. Þú verður að sætta þig við það. Drengurinn er að reyna sitt besta. Það kemur í ljós þegar til lengri tíma lætur hvort hlutirnir séu að ganga upp hjá honum. Hann er að gera sitt besta og meira ég get ekki beðið um.“

Balotelli á enn eftir að skora fyrir Liverpool í deildinni en Ítalinn hefur komið við sögu í sex leikjum liðsins í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert