Pardew: Eins og að setja saman Ikea-húsgögn

Alan Pardew.
Alan Pardew. AFP

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að hann sé að púsla liði sínu saman á sama hátt og sænsku Ikea-húsgögnin séu sett saman.

Newcastle byrjaði tímabilið illa en hefur nú unnið þrjá síðustu leiki sína í úrvalsdeildinni og deildabikarnum, og tekur á móti Liverpool í fyrsta leik dagsins.

„Þetta er eins og húsgagnapakki frá Ikea. Það er ekki hægt að byrja á endanum, þú verður fyrst að setja alla litlu hlutina saman og það  tekur tíma. Ég hef sett saman nokkur slík því konan mín er sænsk! Það verður að gera þetta í áföngum, byrja á öllum litlu stykkjunum, og ef það fyrsta er ekki rétt sett saman, þá virkar ekki það næsta. Ef það er rangt, þá er alveg öruggt að það þriðja gengur ekki upp," sagði Pardew.

„Þjálfarar og knattspyrnustjórar þurfa að vinna á sama hátt. Nú erum við búnir að koma nokkrum pörtum fyrir á réttum stað og þar með er hægt að byrja að byggja ofan á það," sagði Pardew.

Newcastle er í 14. sæti deildarinnar með 10 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Liverpool er í 7. sæti með 14 stig. Leikur liðanna hefst á St. James' Park klukkan 12.45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert