Ekkert sætara en að sigra England

Scott Brown, til vinstri, í leik Skota og Íra í …
Scott Brown, til vinstri, í leik Skota og Íra í undankeppni EM um helgina þar sem Skotar sigruðu, 1:0. AFP

Mikil spenna er í Skotlandi fyrir vináttulandsleikinn gegn Englendingum sem fram fer í Glasgow í kvöld en þetta verður fyrsta viðureign frændþjóðanna í Skotlandi í fimmtán ár.

England og Skotland léku fyrsta landsleik knattspyrnusögunnar árið 1872 en þá gerðu þjóðirnar markalaust jafntefli í Glasgow. Síðast mættust liðin í vináttuleik á Wembley á síðasta ári og þá sigruðu Englendingar, 3:2, þar sem Rickie Lambert skoraði sigurmarkið eftir að Skotar höfðu tvisvar komist yfir í leiknum.

Scott Brown, fyrirliði Skota, segir að þessi leikur sé geysilega stór í augum skosku þjóðarinnar, sennilega mun stærri en leikmenn enska liðsins geri sér grein fyrir.

„Við eru aldir upp við öðruvísi hugsunarhátt í Skotlandi því það er okkur innprentað frá blautu barnsbeini að ekkert sé sætara en að sigra Englendinga. Við erum á leiðinni í leik gegn okkar erkifjendum og stærra verður það ekki hjá nokkrum Skota," sagði Brown við Daily Record.

„Við vitum líka að Englendingum er alveg sama um okkur, þeim er innprentað að þeir séu mikið betri en við og okkur æðri. Þessvegna munum við koma af gífurlegum krafti til leiks því við ætlum að sýna okkur og sanna," sagði Brown.

England og Skotland hafa mæst 111 sinnum frá 1872. England hefur unnið 46 leiki og Skotland 41 en 24 hafa endað með jafntefli. Mesti munur í leikjum liðanna var árið 1961 þegar England sigraði, 9:3, í leik í bresku meistarakeppninni á Wembley.

Bæði lið koma vel stemmd til leiks. Skotar sigruðu Íra, 1:0, í undankeppni EM á föstudaginn og eru með 7 stig eftir fyrstu fjóra leiki sína, á hælum Pólverja og Þjóðverja í D-riðli. Englendingar sigruðu Slóvena, 3:1, á laugardaginn og eru með yfirburðaforystu í E-riðli, þar sem þeir hafa unnið alla fjóra leiki sína.

Leikur liðanna fer fram á Celtic Park og hefst klukkan 20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert