Hann er algjörlega miður sín

Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. AFP

Jordan Henderson, nýskipaður vara-fyrirliði Liverpool, segir að framherjinn Daniel Sturridge sé miður sín yfir að hafa meiðst á ný með þeim afleiðingum að hann spilar líklega ekki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á ný fyrr en um eða eftir áramót.

Sturridge meiddist á landsliðsæfingu Englands í byrjun september en var byrjaður að æfa á ný í vikunni og átti að spila gegn Crystal Palace á sunnudaginn. Hann meiddist hinsvegar í læri á æfingu og verður frá í 5-6 vikur í viðbót.

„Þetta er gífurlegt áfall, ekki bara fyrir liðið, heldur fyrir Daniel sjálfan. Hann er algjörlega miður sín og langt niðri því hann hlakkaði svo mikið til að spila á ný. Hann var kominn í gott stand svo vonbrigðin eru mikil, bæði fyrir liðið og hann," sagði Henderson á fréttamannafundi í dag.

„Við samherjar hans þurfum að hjálpa honum og sýna honum eins mikinn stuðning og við getur. Sjálfur leggur hann sig allan fram í endurhæfingunni til að geta spilað eins fljótt og mögulegt er. Vonandi gengur þetta hratt fyrir sig hjá honum í þetta sinn," sagði Henderson. Sturridge skoraði 21 mark fyrir liðið í úrvalsdeildinni í fyrra en hefur á þessu tímabili aðeins náð að spila þrjá leiki og skora eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert