Chelsea jók forskotið - Newcastle í 4. sæti

Chelsea styrkti í dag stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með öruggum sigri á WBA, 2:0. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea töpuðu 2:1 á útivelli gegn meisturum Manchester City. Newcastle er komið í Meistaradeildarsæti.

Chelsea er nú með 7 stiga forskot á toppi deildarinnar en það gæti minnkað á mánudaginn þegar Southampton mætir Aston Villa. City er í 3. sæti með 24 stig eftir 12 leiki, 8 stigum á eftir Chelsea.

Diego Costa og Eden Hazard skoruðu mörk Chelsea í dag áður Claudio Yacob var rekinn af velli á 29. mínútu. Manni fleiri náðu Chelsea-menn þó ekki að bæta við mörkum.

City lenti undir gegn Swansea þegar Wilfried Bony skoraði eftir frábæra sendingu Nathan Dyer á 9. mínútu. Stevan Jovetic jafnaði metin skömmu síðar, eftir fyrirgjöf frá Jesús Navas, og Yaya Touré skoraði sigurmarkið eftir um klukkutíma leik. Gylfi var í liði Swansea þar til um 10 mínútur voru eftir. Varamaður hans, Bafétimbi Gomis, fékk frábært færi til að jafna metin en skaut framhjá.

Fimm í röð hjá Newcastle

Newcastle vann fimmta leik sinn í röð þegar liðið lagði QPR að velli, 1:0, með marki Moussa Sissoko korteri fyrir leikslok. Newcastle er komið upp í 4. sæti eftir að hafa ekki unnið leik í fyrstu sjö umferðunum og er með 19 stig.

Everton vann góðan sigur á West Ham, 2:1, og þar með fór West Ham niður í 5. sæti með 18 stig og gæti misst Arsenal eða Manchester United upp fyrir sig á eftir. Everton er með 17 stig.

Burnley vann annan leik sinn á tímabilinu en Danny Ings gerði bæði mörk liðsins í 2:1-útisigri á Stoke. Leicester og Sunderland gerðu markalaust jafntefli.

Úrslit dagsins:

Chelsea - WBA, 2:0
(Diego Costa 11., Eden Hazard 25. Rautt spjald: Claudio Yacob (WBA) 29.)
Everton - West Ham, 2:1
(Romelu Lukaku 26., Leon Osman 73. - Mauro Zárate 56.)
Leicester - Sunderland, 0:0
Man. City - Swansea, 2:1
(Stevan Jovetic 19., Yaya Touré 62. - Wilfried Bony 9.)
Newcastle - QPR, 1:0
(Moussa Sissoko 78.)
Stoke - Burnley, 1:2
(Jonathan Walters 32. - Danny Ings 12., 14.)

Fylgst er með öllu sem gerist í leikjum dagsins í ENSKA BOLTANUM Í BEINNI.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert