Mourinho: Sjaldan séð svona fótbolta

Oscar reynir skot í leiknum gegn WBA í dag.
Oscar reynir skot í leiknum gegn WBA í dag. AFP

„Þetta var þægilegt en en í fyrri hálfleiknum fannst mér við leika ótrúlega vel,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir 2:0-sigurinn á WBA í dag. Eftir sigurinn er Chelsea með sjö stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik og WBA missti mann af velli með rautt spjald eftir hálftíma leik. Það náði Chelsea þó ekki að nýta til að skora fleiri mörk.

„Við hefðum getað komist í 3:0, 4:0 eða 5:0 í fyrri hálfleiknum. Gæðin voru til staðar hjá okkur. Ég man ekki eftir að hafa séð fótbolta af þessu tagi oft. Við gerðum völlinn mjög breiðan, bjuggum til svæði á miðjunni og munurinn hefði átt að vera meiri en 2:0. Við höfum verið að spila vel. Við náum þeim úrslitum sem við eigum skilið og það er ég ánægður með. Sérstaklega eftir 15 daga án þess að geta unnið með leikmönnunum,“ sagði Mourinho.

Diego Costa skoraði fyrra mark Chelsea eftir að hafa fengið tveggja vikna hvíld.

„Það er auðvelt að sjá muninn á honum. Núna getur hann hlaupið, tekið á sprett og barist í hverju návígi,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert