Eiður hefur lítið breyst

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert

Netútgáfa Bolton News segir að eftir fund Eiðs Smára Guðjohnsens með Phil Gartside, stjórnarformanni Bolton Wanderers, á föstudaginn séu miklar líkur á því að Íslendingurinn gangi til liðs við félagið í annað sinn.

Neil Lennon knattspyrnustjóri Bolton ætlar, samkvæmt Bolton News, að tefla Eiði fram í lokuðum æfingaleik í vikunni, og þá eigi hann að spila með B-liði félagsins gegn Middlesbrough.

Dorian Devite, leikmaður Bolton, var í leikmannahópi Tottenham á sama tíma og Eiður og segir að hann hafi engu gleymt.

„Hann er leikmaður sem myndi alltaf styrkja okkur. Það verður að koma í ljós hvort hann verður áfram hérna en ég vona svo sannarlega að af því verði. Hann er hágæðaleikmaður, ég kynntist því hjá Tottenham, og hann hefur lítið breyst. Hann er með mikla yfirsýn þegar hann er með boltann, hann er klókur, og ég held að hann yrði góður styrkur fyrir okkar hóp,“ segir Devite.

„Eiður fellur vel inn í hópinn og hann er leikmaður sem alltaf er hægt að treysta á þegar hann er með boltann. Hann getur gefið úrslitasendinguna, lykilsnertinguna - ég held að hann sé enn jafngóður og hann var,“ sagði Devite.

Bolton News segir að stuðningsmenn Bolton hafi sungið nafn Eiðs þegar liðið varð að gera sér góðu jafntefli, 1:1, gegn botnliði Blackpool um helgina.

„Hann er goðsögn, og það er heiður að æfa með honum, hvort sem hann semur við okkur eða ekki. Við höfum spurt hann mikið, sérstaklega út í Barcelona. Sjálfur gat ég ekki beðið eftir því að reyna mig gegn honum og við höfum tekist vel á á æfingunum, enda þótt hann sé ekki búinn að skora mörg mörk hjá mér,“ segir markvörður Bolton, Andy Lonergan.

„Hann er samt miklu meira en markaskorari, hann heldur boltanm svo vel. Ég held að hann myndi styrkja okkur heilmikið - hann lyftir samherjunum á hærra stig. Sá sem hefur spilað með Barcelona, Chelsea, Tottenham og Mónakó gerir þá sem eru í kringum hann betri. Strákarnir vilja allir sýna honum hvað þeir geta, enginn vill fá hann til að hugsa um sig - hvað er hann að gera hérna?“ sagði Lonergan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert