Eiður spilaði í 75 mínútur

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eva Björk

Eiður Smári Guðjohnsen lék æfingaleik með enska knattspyrnuliðinu Bolton í dag þegar það mætti Bury fyrir luktum dyrum á æfingasvæði félagsins í gær og spilaði í 75 mínútur í sigurleik, 3:1.

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, sagði við Bolton News í kvöld að hann væri ánægður með allt hjá Eiði til þessa.

„Ég væri ekki hissa þó önnur félög væru að velta honum fyrir sér. Sú ákvörðun hans að halda áfram að spila fótbolta er áhugaverð, hann var í fríi og kemur mjög ferskur úr því og hefur aðlagast  mjög vel hjá okkur. Nú á ég bara eftir að meta hans stöðu, en hvernig á maður að meta Eið Guðjohnsen?" sagði Lennon.

Fram kom að Lennon vildi koma Eiði í betra form áður en hann tekur endanlega ákvörðun um hvort samið verði við hann.

„Við þurfum að koma honum nær því að vera í 90 mínútna formi og með þessum æfingaleik fékk ég fyrstu hugmynd um stöðuna á honum. Við getum orðað þetta þannig - hann hefur gert algjörlega allt sem lagt hefur verið fyrir hann. Nú þurfum við bara að sjá hann spila meiri fótbolta. Hæfileikarnir eru til staðar, það er ekki spurningin. Líkamlega ástandið ræður úrslitum og það eigum við eftir að meta endanlega," sagði Neil Lennon.

Fram kemur að Eiður muni spila annan leik með yngra liði félagsins gegn Middlesbrough á mánudaginn kemur, og fljótlega eftir það ætti ákvörðun Bolton-manna að liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert