Þeir gætu selt okkur alla

Samir Nasri.
Samir Nasri. AFP

Samir Nasri, franski miðjumaðurinn hjá Manchester City, segir að leikmenn liðsins megi búa sig undir að vera seldir og aðrir fengnir í staðinn ef þeim mistakist að komast áfram úr riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Þrátt fyrir gífurlega sterkan leikmannahóp hefur City ekki unnið leik í keppninni í vetur, er neðst í sínum riðli með tvö stig úr fyrstu fjórum leikjunum, og verður að vinna Bayern München í kvöld til að eiga möguleika á að komast áfram.

„Við verðum að gera eitthvað, annars verða komnir nýir leikmenn í okkar stað á næsta ári. Í fullri hreinskilni, með þennan mannskap og þau laun sem þeim eru greidd, 90 prósent af leikmannahópnum eru í heimsklassa, væri það hrikalegt áfall fyrir félagið ef það kæmist ekki áfram, og fyrir okkur líka,“ sagði Nasri á fréttamannafundi í gær.

Bayern er þegar komið áfram með 12 stig úr fjórum leikjum. Roma og CSKA Moskva eru með fjögur stig hvort og mætast í Moskvu. Sigurliðið þar kemst áfram í kvöld ef City nær ekki að vinna Bayern. Í lokaumferðinni þarf City svo að fara til Ítalíu og mætir Roma þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert