Gylfi: Jólatörnin skiptir sköpum

Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við Fernandinho í leiknum gegn …
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við Fernandinho í leiknum gegn Man. City um síðustu helgi. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að þeir samherjar sínir hjá Swansea sem hafi minna fengið að spreyta sig í vetur verði að vera undir það búnir að leika stórt hlutverk í erfiðri leikjatörn liðsins í jólamánuðinum.

Swansea leikur sex leiki í desember og ljóst að Garry Monk mun líkt og aðrir knattspyrnustjórar þurfa að finna leiðir til að dreifa álaginu á leikmenn sína vel.

„Við þurfum sterkan hóp því þetta er langt tímabil og menn munu meiðast. Við þurfum á því að halda að þeir leikmenn sem spila ekki hvern einasta leik komi inn af krafti þegar eftir því er kallað,“ sagði Gylfi við South Wales Evening Post.

„Núna eigum við fyrir höndum tvo heimaleiki. Við höfum verið sterkir á heimavelli og núna er mikilvæg leikjatörn í uppsiglingu. Við verðum að fá eitthvað út úr þessum leikjum. Jólatörnin er afar mikilvægur tími fyrir okkur,“ sagði Gylfi.

Lofar Bony í hástert

Þeir Gylfi og framherjinn Wilfried Bony hafa náð vel saman í liði Swansea og allir sem að félaginu koma fögnuðu því á dögunum þegar Fílabeinsstrendingurinn endurnýjaði samning sinn við félagið.

„Ég held að allir hafi glaðst yfir því að Wilfried skrifaði undir, bæði leikmenn og stuðningsmenn. Hann er stórkostlegur leikmaður fyrir okkur sem getur skorað í hverjum einasta leik,“ sagði Gylfi.

„Það er mjög auðvelt að spila með honum. Hann er augljóslega mjög líkamlega sterkur, getur haldið boltanum vel, og þá er auðvelt að taka réttu hlaupin í kringum hann. Hann á auðvelt með að koma boltanum á mig og þegar hann fær færi þá nýtir hann þau vanalega,“ sagði Gylfi.

Swansea mætir Crystal Palace á laugardaginn, QPR á þriðjudaginn og svo West Ham á útivelli sunnudaginn 7. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert