Rojo og Falcao með Man. Utd á morgun?

Radamel Falcao er klár í slaginn eftir meiðsli.
Radamel Falcao er klár í slaginn eftir meiðsli. AFP

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United sló á létta strengi á fundi með fréttamönnum í dag áður en hann fór yfir stöðuna á leikmannahópi sínum.

Fyrir viku síðan var haft eftir Van Gaal á Twitter-síðu Manchester United að Daley Blind yrði frá keppni í sex mánuði vegna meiðsla. Sá sem skrifaði þá færslu heyrði þó einfaldlega ekki nógu vel í Van Gaal því Hollendingurinn sagði að Blind yrði EKKI frá keppni í sex mánuði, heldur skemur.

„Kannski að Twitter-ritari Manchester United geti verið vakandi núna!“ sagði Van Gaal þegar hann ræddi við fréttamenn í dag.

Hollendingurinn sagði að Luke Shaw yrði frá keppni vegna ökklameiðsla næstu vikurnar, en eins og fram kom á mbl.is í morgun er talið að bakvörðurinn spili jafnvel ekki meira á þessu ári.

Van Gaal sagði hins vegar að bæði Radamel Falcao og Marcos Rojo væru að jafna sig af meiðslum. Hann sagði að báðir gætu átt eftir að fá sæti í 18 manna leikmannahópnum á morgun, þegar United mætir Hull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert